Sandra Mjöll Jónsdóttir Buch

Sandra er doktor í líf- og læknavísindum og ein af mentorum Snjallræðis. Hún er vörustjóri hjá Florealis og stofnandi Platome Líftækni. Hún hefur víðtæka reynslu af nýsköpun og hefur ferðast víða sem fyrirlesari og ráðgjafi þar sem hún leggur áherslu á samfélagslega ábyrgð í vísindum og nýsköpun, fjölbreytileika og valdeflingu ungs fólks. Sandra var valin sem frumkvöðull ársins af Heimssamtökum Kvenna í nýsköpun 2017 og hefur tvisvar verið tilnefnd sem Framúrskarandi Ungur Íslendingur. Sandra er á lista Forbes yfir top 100 evrópskar konur í nýsköpun sem vert er að fylgjast með.

Hallur Þór Sigurðarson

Hallur starfar við Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og er einn af mentorum Snjallræðis og. Hann er doktor í nýsköpun- og frumkvöðlafræðum frá Copenhagen Business School og kennir og stundar rannsóknir á því sviði. Hallur er er einnig menntaður tölvunarfræðingur, starfaði áður við upplýsingatækni og hefur stýrt fjölda hugbúnaðarverkefna. Hallur tekur m.a. þátt í alþjóðlega samstarfsverkefninu Common Good First, þar sem evrópskir og suður-afrískir háskólar vinna að því að styðja við samfélagslega nýsköpun í S-Afríku.

Kristinn Jón Ólafsson

Kristinn er einn af mentorum Snjallræðis og verkefnastjóri Snjallborgarinnar sem er nýsköpunar- og þróunareining innan Reykjavíkurborgar sem vinnur m.a. að fyrstu nýsköpunarstefnu borgarinnar. Kristinn er frumkvöðull í eðli sínu og hefur unun af því að leita lausna þar sem hann getur blandað saman áhuga sínum og þekkingu á nýsköpun og tækni til að hafa áhrif á nær samfélagið til hins betra. Nýsköpunarverkefni sem Kristinn hefur komið að eru, m.a. umhverfisvæna orkuverkefnið EcoMals, framleiðsla sjónvarpsþáttarins Toppstöðin um vegferð sprotafyrirtækja og útgáfu bókar tengt þáttunum með reynslusögum íslenskra frumkvöðla. Þá skrifaði Kristinn MSc lokaritgerð sína í nýsköpun og frumkvöðlafræði við BI Handelshoyskolen í Osló um aðferðafræði til mælingar á árangri verkefna samfélags frumkvöðla.

Árdís Ármannsdóttir

Árdís er með meistarapróf í stefnumótun og stjórnun frá Viðskiptaháskólanum í Árósum árið 2010. Í meistaraverkefni sínu tók hún fyrir samfélagslega nýsköpun og samfélagslega frumkvöðla, hugmyndafræðina á bak við hvorutveggja og stöðu mála í málaflokknum á Íslandi. Hún var fyrst til að kynna hugtökin og hugmyndirnar til sögunnar hérlendis og eftir hana liggur m.a. rannsóknarritgerð sem gefin var út af Lambert Academic Publishing. Árdís var ritstjóri bókar um nýsköpun á Íslandi, Þekkingin beisluð – Nýsköpunarbók, sem gefin var út í tilefni af stórafmæli Þorsteins Inga Sigfússonar, forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands. Árdís starfaði um árabil sem markaðsstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og vann þar náið með fræðimönnum og frumkvöðlum á fjölbreyttu sviði, var framkvæmdastjóri Skema sem er lítið samfélagslegt sprotafyrirtæki og stýrði uppbyggingu á nýrri námslínu í haftengdri nýsköpun á vegum Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri. Námslínu sem nú er kennd í Vestmannaeyjum. Árdís starfar í dag sem samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar.

Ósk Sigurðardóttir

Ósk er samfélagslegur frumkvöðull, stofnandi og eigandi TravAble sem er frítt aðgengisupplýsinga app og ein af mentorum Snjallræðis. TravAble var líklega fyrsta samfélagslega nýsköpunarfyrirtækið sem hlaut Sprota-styrk Rannís. TravAble tók þátt í stórum Norrænum velferðarhraðli og hefur unnið til fjölda verðlauna og viðurkenninga bæði hér heima sem og erlendis. Ósk er menntaður iðjuþjálfi með meistaragráðu í verkefnastjórnun. Hún hefur starfað í heilbrigðisgeiranum í fjölda ára auk þess að hafa verið verkefnastjóri í hugbúnaðargeiranum. Hún starfar núna sem verkefnastjóri og leiðbeinandi á Landspítalanum og kennir m.a. Lean hugmyndafræðina. Ósk hefur einnig starfað sem formaður Iðjuþjálfafélagsins síðastliðin 6 ár.

Adam Elsod

Adam er margverðlaunaður aðgerðarsinni, kennari og samfélagslegur frumkvöðull og einn af þeim sem tók þátt á fyrsta degi Snjallræðis og veitti þátttakendum innblástur, tengsl og hagnýta fræðslu. Adam er stjórnarformaður samtakanna The Young Republic sem vinna við að valdefla ungt flóttafólk í Evrópu, meðlimur ráðgjafaráðs Evrópuráðsins, leiðbeinandi hjá the European Youth Forum og meðstofnandi samtakanna Network for refugee voices. Adam hefur starfað síðustu 10 ár að mismunandi verkefnum sem tengjast lýðræði, mannréttindum og valdeflingu ungs flóttafólks í Mið-Austurlöndum, Norður - Afríku og Evrópu.

Sophia Mahfooz

Sophia Mahfooz var ein af fjölmörgum áhugaverðum ræðumönnum á ráðstefnunni 10. október 2018 í Veröld - húsi Vigdísar. Sophia flúði til London frá Afganistan með fjölskyldu sinni þegar hún var ung að aldri en flutti seinna til San Fransisco. Þar hefur hún unnið sem framkvæmdastjóri Girls in Tech, sem vinnur að menntun og valdeflingu kvenna. Hún hefur einnig unnið hjá fjölda alþjóðlegra tæknifyrirtækja eins og Facebook, Apple og Cisco, að verkefnum sem miða að því að veita innflytjendum aukin tækifæri á vinnumarkaði. Í núverandi verkefnum sínum nýtir Sophia þekkingu sína á tæknigeiranum, menntun og stefnumótun til að bæta aðstæður fólks sem hefur þurft að flýja heimili sín. Hún rekur SVIP, The Silicone Valley Internship Programme og situr í nefnd í breska þinginu sem vinnur að verkefnum tengdum Afghanistan.

Magnús Orri Schram

Magnús Orri Schram er með BA próf í sagnfræði og MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík. Um þessar mundir starfar hann sem framkvæmdastjóri og einn eiganda Rauðukamba sem standa að uppbyggingu í ferðaþjónustu í Þjórsárdal en þar er ráðgert að setja upp baðstað og hótel með mjög umhverfisvænum áherslum. Magnús hefur starfað við fjölmiðla, sölu- og markaðsmál, rekið eigin fyrirtæki og þá var hann Alþingismaður árin 2009-2013. Árið 2012 gaf Magnús Orri út bókina “ Við stöndum á tímamótum” sem fjallar meðal annars um áskoranir og möguleika Íslands í umhverfismálum. Eftir að þingmennsku lauk starfaði Magnús Orri sem stjórnendaráðgjafi hjá Capacent en hefur síðan unnið að uppbyggingu eigin fyrirtækis, sinnt ráðgjöf og haldið fyrirlestra. Hann kennir frumkvöðlafræði (entrepreneurship) við MBA nám Háskólans í Reykjavík.

Regína Bjarnadóttir

Regína er þróunarhagfræðingur að mennt. Hún er framkvæmdastjóri Auroru velgerðasjóðs og einn af mentorum Snjallræðis. Aurora er sjálfstæður sjóður sem vinnur að verkefnum á sviði hönnunar og tónlistar á Íslandi og menntunar og atvinnusköpunar í Sierra Leone, Vestur Afríku. Áður starfaði Regína sem forstöðumaður Greiningardeildar Arion banka, hjá Seðlabanka Íslands, sem ráðgjafi á hrávörumarkaði hjá CRU Strategies í London og sem verkefnastjóri hjá Þróunarsamvinnustofnun Sameinuðu þjóðanna í Guyana, Suður Ameríku. Einnig hefur hún sinnt ráðgjafaverkefnum, s.s. fyrir utanríkisráðuneytið, og var formaður stjórnar UN Women á Íslandi. Í gegnum árin hefur hún með einum eða öðrum hætti unnið að þeim málefnum sem hún brennur fyrir, s.s. jafnrétti kynja, sjálfbærri notkun á náttúruauðlindum og sköpun tækifæra fyrir ungt fólk.

Rósbjörg Jónsdóttir

Rósbjörg Jónsdóttir er stofnandi og ráðgjafafyrirtækisins Cognitio sem jafnframt er fulltrúi SPI – Social Progress Imperative á Íslandi, formaður Landverndar og ein af mentorum Snjallræðis. Rósbjörg er sérfræðingur á sviði samkeppnishæfni og sjálfbærni. Hún var ein af frumkvöðlunum sem stóðu að formun klasasamstarfs hér á landi. Hún eiddi kortlagningu, innleiðingu og stofnun Íslenska ferðaklasans og vann einnig að innleiðingu íslenska jarðvarmaklasanum. Ennfremur hefur Rósbjörg sérfræðiþekkingu á viðburðastjórnun og hefur byggt upp og þróað alþjóðlegar ráðstefnur hér á landi og leiðir eina slíka – What Works in SPI. Rósbjörg er með BA í þýsku og MBA frá Háskóla Íslands með áherslu á þekkingarstjórnun. Þá hefur Rósbjörg tekið sérfræðinámskeið á sviði samkeppnishæfni, og klasastjórnunar.

Rakel Garðarsdóttir

Rakel er ein af mentorum Snjallræði en hún stofnaði samtökin VAKANDI til að efla vitund um matarsóun í byrjun árs árið 2014. Rakel hefur síðan þá unnið ötult starf í baráttunni gegn matarsóun, gefið út bókina Vakandi veröld, verið með vikulegan pistil á Rás 1 um umhverfismál og eftir hana liggur einnig heimildamyndin UseLess sem fjallar um matar-og tískusóun. 

Snjólaug Ólafsdóttir

Dr. Snjólaug Ólafsdóttir er umhverfisverkfræðingur, einn af mentorum Snjallræðis og eigandi Andrýmis ráðgjafar sem sérhæfir sig í sjálfbærniverkefnum fyrirtækja. Snjólaug hefur mikla reynslu af verkefnum tengdum umhverfismálum ýmis konar, samfélagsábyrgð fyrirtækja og aukinni vitund almennings og starfsfólks á sjálfbærni.

Bárður Örn Gunnarsson

Bárður Örn er markaðsmaður. Hann hefur 20 ára reynslu af markaðsmálum í fyrsta, öðrum og þriðja geiranum. Hann stofnaði birtingafyrirtækið Ratsjá sem var frumkvöðull í stafrænum auglýsingabirtingum, hann var markaðsstjóri VÍS og starfaði sem framkvæmdastjóri samskiptasviðs hjá Nordic Innovation í Noregi og byggði m.a. upp Norræn nýsköpunarsetur í Silicon Valley, New York og Abu Dhabi. Hann hefur einnig komið að alþjóðlegum samkeppnum og uppbyggingu viðskiptahraðla fyrir frumkvöðla. Bárður hefur mikla trú á samfélagslegum frumkvöðlum og gefur vinnu sína til að mynda til Frumbjargar og TravAble. Bárður er stundakennari í nýsköpunarfræðum við Háskólann á Bifröst.

Héðinn Unnsteinsson

Héðinn er  stefnumótunarsérfræðingur í forsætisráðuneytinu með meistargráðu í alþjóðlegri stefnumótun og stefnugreiningu frá Háskólanum í Bath á Englandi og einn af mentorum Snjallræðis. Hann hefur sinnt samhæfingar verkefnum innan Stjórnarráðsins þ.á.m. samhæfingu stefna og áætlana og stundakennslu við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands í meistaranámi í stefnumótun og áætlanagerð. Héðinn starfaði áður hjá heilbrigðisráðuneytinu og Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni og hefur undanfarin 25 ár verið frumkvöðull í geðheilbrigðismálum. 

Þorsteinn Kári Jónsson

Þorsteinn er verkefnastjóri framkvæmdastjórnar Marel, varaformaður Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð og einn af mentorum Snjallræðis. Hann heldur meðal annars utan um sjálfbærni og samfélagslega ábyrgð Marel en starfaði áður sem ráðgjafi á sviði samfélagsábyrgðar og stefnumótunar. Þorsteinn hefur í gegnum tíðina aðstoðað bæði stór og smá fyrirtæki í að tengja saman stefnumótun og samfélagslega ábyrgð sína ásamt því að sinna kennslu á sviði sjálfbærni, siðfræði, samfélagsábyrgðar og stefnumótunar í háskólum landins. Þorsteinn er menntaður viðskiptafræðingur með áherslu á social entrepreneurship.

Kristján Guy Burgess

Kristján Guy Burgess er menntaður í alþjóðastjórnmálum og alþjóðalögum og einn af mentorum Snjallræðis. Eftir áratugsstarf við fjölmiðlun, útgáfu og almannatengsl, starfrækti hann á árunum 2005-2009 Alþjóðaver, sem tengdi saman ólíka aðila og fjármagn að samfélagslega mikilvægum verkefnum víða um heim. Hann á að baki fjölbreyttan starfsferil, m.a. sem aðstoðarmaður utanríkisráðherra og starfsmaður Atlantshafsbandalagsins við Sameinuðu þjóðirnar í New York. Síðastliðið ár hefur hann starfað við verkefnaþróun og sem ráðgjafi, m.a. um ábyrgar fjárfestingar, alþjóðasamstarf, loftslagsmál, útflutningsaðstoð og þróunarsamvinnu. 

Kathy Gong

Kathy, ein af fremstu frumkvöðlum Kína og meðstofnandi og framkvæmdastjóri Wafa Games, tók þátt á fyrsta degi Snjallræðis og veitti þátttakendum innblástur, tengsl og hagnýta fræðslu. Hún var valin ein af 35 fremstu fumkvöðlum heims undir 35 af MIT árið 2017 og varð skákmeistari í Kína aðeins 10 ára gömul. Kathy var í stjórn og ein af stofnendum World Economic Forum Global Shapers Community 2013-2016 og meðstjórnandi APEC Women Leadership Forum 2013 - 2014.

Harald Quintus-Bosz

Elíza Harald Quintus-Bosz var einn af fyrirlesurum á ráðstefnu Höfða friðarseturs þann 10. október 2018. Harald hefur 25 ára reynslu af vöruþróun og er meðlimur í tækniráði Forbes. Harald kennir Designe for Scale við MIT, nám sem leggur áherslu á nýsköpun í þágu þróunarríkja. Harald hefur komið að fjölmörgum mikilvægum nýsköpunarverkefnum og hefur meðal annars tekið þátt í að þróa nýjungar sem hafa nýst til þess að auðvelda líf fólks í flóttamannabúðum

Búi Bjarmar Aðalsteinsson

Búi Bjarmar Aðalsteinsson er vöruhönnuður og stofnandi Grallaragerðarinnar hönnunarstúdíó. Hann hefur meðal annars starfað við þróun verkefna fyrir vinnustofur fanga innan veggja Litla Hrauns, bættri nýtingu affallsafurða úr grænmetisrækt og þróað framleiðslukerfi sem byggja á nýtingu skordýra sem matvæli. Búi starfar einnig sem stundakennari við Listháskóla Íslands. 

Ragna Sara Jónsdóttir

Ragna Sara er mannfræðingur, stofnandi FÓLK Reykjavík, hönnunarfyrirtækis með áherslu á sjálfbærni og nýsköpun og einn af mentorum snjallræðis. Eftir áratugastarf í fjölmiðlum og dagskrárgerð lauk hún meistaranámi í alþjóðaviðskiptum og þróunarfræðum frá CBS og hefur starfað með einum eða öðrum hætti við sjálfbærni, samfélagsábyrgð, jafnréttis- og umhverfismál frá árinu 2008. Meðal annars fyrir Sameinuðu þjóðirnar, utanríkisráðuneytið, Landsvirkjun og Íslandsstofu. Hún hefur auk þess tekið að sér trúnaðarstörf á þessum sviðum, var varaformaður Festu miðstöðvar um samfélagsábyrgð, formaður stjórnar UN Women á Íslandi og formaður dómnefndar Umhverfisverðlauna Atvinnulífsins.  

Viktoría Valdimarsdóttir

Viktoría er viðskiptafræðingur (Cand.Oecon) frá Háskóla Íslands og einn af mentorum Snjallræðis. Hún er með meistaragráðu í frumkvöðlafræði og nýsköpun frá Háskólanum í Lúxemborg og gráðu í sjálfbærri þróun og samfélagslegri nýsköpun, einnig frá Háskólanum í Lúxemborg. Viktoría hefur starfað sem markaðsstjóri á Íslandi um árabil en undanfarin ár hefur hún búið og starfað í Lúxemborg þar sem hún leiðbeindir m.a. á árlegum námskeiðum fyrir frumkvöðlakonur í gerð viðskiptalíkana. 

Bjarni Herrera

Bjarni er lögfræðimenntaður og einn af mentorum Snjallræðis. Hann starfaði í bönkunum í um sjö ár, meðal annars sem ritari stjórnar Arion banka í rúmlega fjögur ár. Síðastliðin fjögur ár hefur hann verði búsettur í Asíu þar sem hann kláraði MBA nám frá S-Kóreu og starfaði fyrir Fortune 500 fyrirtæki í Singapore og starfaði einnig í Kína og Hong Kong. Í dag er hann að hjálpa rekstraraðilum að skapa sér samkeppnisforskot í gegnum sjálfbærni til að stuðla að betra samfélagi í framtíðinni.

Páll Ríkharðsson

Páll er einn af mentorum Snjallræðis. Hann lauk doktorsprófi í viðskiptafræði árið 1997 frá Háskólanum í Árósum og starfaði sem manager og senior manager hjá PricewaterhouseCoopers í Kaupmannahöfn á árunum 1994 til 2000. Þá tók hann við stöðu dósents í reikningshaldi og upplýsingatækni við Háskólann í Árósum þangað til 2007. Frá 2007 til 2013 starfaði Páll sem ráðgjafi hjá fyrirtækjunum SAS Institute, PwC og Herbert Nathan & Co í Kaupmannahöfn. Frá 2012 tók Páll við fullri stöðu dósents við Háskóla Reykjavíkur og varð prófessor 2016. Páll hefur birt fjölda bóka og greina um m.a. upplýsingastjórnun, viðskiptagreind, stjórnunarreikningsskil og innra eftirlit.

Sigtryggur Baldursson

Sigtryggur er einn af mentorum Snjallræðis. Hann er framkvæmdastjóri hjá Iceland Music/ÚTÓN, sem er útflutninsskrifstofa íslenskrar tónlistar, en hann er og hefur verið virkur tónlistarmaður til margra ára. Hann er meðal annars stofnmeðlimur Sykurmolanna og Smekkleysu sm hf. og er fjölvirkur í íslensku tónlistarlífi.

Tanja Wohlrab-Ryan

Tanja  er ein af mentorum Snjallræðis og stofnandi og framkvæmdastjóri Kveikju, frjálsra félagasamtaka samfélagslegra frumkvöðla og fyrirtækja. Tanja hefur lagt áherslu á samfélagslega frumkvöðlastarfsemi í starfi sínu og menntun. Hún hefur m.a. sérhæft sig í að aðstoða fyrirtæki og stofnanir við að stuðla að jákvæðum samfélagsáhrifum, þar sem hún horfir sérstaklega til stefnumótunar, áætlanagerðar og eftirfylgni. 

Ingi Rafn Sigurðsson

Ingi Rafn er einn af mentorum Snjallræðis. Hann er framkvæmdastjóri og einn af stofnendum Karolina Fund, þar sem hann hefur staðið að fjármögnun fjölda skapandi verkefna og listviðburða. Hann gegndi stöðu framkvæmdastjóra Listahátíðar í Reykjavík árin 2014 og 2015 og stofnaði reykjavikcornerstore.com, hönnunarvefsölu sem hefur notið gríðarlegra vinsælda og komst í topp 5 á Pinterest á heimsvísu.

Gísli Ólafsson

Gísli er CTO hjá Beringar Finance, stærsta tæknimiðaða banka Evrópu og er einn af mentorum Snjallræðis. Gísli hefur verið í virkur í upplýsingageiranum í yfir 30 ára eða allt frá því að hann seldi sitt fyrsta forrit 14 ára gamall. Hann vann í yfir 10 ár hjá Microsoft, þar sem hann kom að vöruþróun, sölu, tækniþróun og en sinnir nú ráðgjöf til stjórnvalda og alþjóðlegra stofnana varðandi hagnýtar tæknilausnir í opinberri starfsemi og rekstri.

Jarþrúður Ásmundsdóttir

Jarþrúður er framkvæmdastjóri Icelandic Startups og ein af mentorum Snjallræðis. Hún er með með viðskiptafræðigráðu frá Háskóla Íslands og MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík. Jarþrúður hefur víðtæka reynslu úr viðskiptalífinu, meðal annars af rekstrar- og markaðsmálum. Áður starfaði hún sem framkvæmdastjóri Gestastofu Ölgerðarinnar, sem var nýsköpun innan rótgróins fyrirtækis. Það verkefni tífaldaðist undir hennar stjórn. Í núverandi starfi vinnur hún að því að þróa áfram starfssemi Icelandic Startups ásamt því að veita frumkvöðlum ráðgjöf og tengja þá við sérfræðinga og fjárfesta.

Hrund Gunnsteinsdóttir

Hrund er þróunarfræðingur, frumkvöðull og ein af mentorum Snjallræðis. Hún er jafnframt framkvæmdastjóri Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð og stjórnarformaður Tækniþróunarsjóðs. Hrund er með áralanga reynslu af störfum fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Hún er handritshöfundur og annar leikstjóra InnSæis - the Sea withihn en myndin hefur farið sigurför um heiminn og fjallar um listina að dafna, skapa og vera leiðandi á tímum hraðra breytinga og áreitis. Hrund er jafnframt í hópi Yale Greenberg World Fellows, World Economic Forum Young Global Leaders og World Economic Forum Cultural Leaders.

Ingi Björn Sigurðsson

Ingi Björn Sigurðsson er verkefnastjóri hjá Icelandic Startups og einn af mentorum Snjallræðis. Hann hefur tekið þátt í stofna, fjármagna og aðstoðað tugi sprotafyrirtækja á síðustu tíu árum. Á síðstu misserum hefur Ingi Björn starfað með norrænum vaxtarfyrirtækjum sem eru að taka næstu skerf í tilveru sinni. Því má segja að Ingi Björn hafi gríðarlega reynslu sem getur nýst frumkvöðlum bæði á fyrstu stigum og til vaxtar á erlendum mörkuðum.

Brandur Karlsson

Brandur er stofnandi Frumbjörg, Frumkvöðlamiðstöðvar Sjálfsbjargar. Hann hefur tekið þátt í að móta nýja stefnu í velferðartækni fyrir Reykjavík og sveitafélög á höfuðborgarsvæðinu ásamt því að veita ráðuneytum ráðgjöf um velferðar tengd málefni. Hann hefur líka komið að verkefnum tengdum sjálfbærni og vistrækt, þar á meðal við uppbyggingu á alþjóðlegu samstarfsverkefni sem miðar að því að endurhugsa hvernig við framleiðum matvæli með vistvænum hætti. Brandur var nýverið valinn "Ecosystem hero" ársins af Nýsköpunarkeppni Norðurlandanna en Frumbjörg vann í fyrra í sömu keppni. Brandur gerir sitt besta í að vera öllum frumkvöðlum sem eru að reyna að bæta samfélagið innan handar og því er það sönn ánægja að vera einn af mentorum Snjallræðis