Snjallræði 2018

Eftirtalin teymi tóku þátt í hraðlinum árið 2019

Bergið Headspace

Bergið headspace tók þátt í fyrsta Snjallræði haustið 2018. Þá hét það ekki Bergið headspace og hugmyndin var í raun bara á byrjunarstigum.

Ég get með sanni sagt að Snjallræði hjálpaði okkur mjög mikið í að komast af stað. 

Ég fékk tækifæri til að koma og vinna með öðru skapandi fólki, fá leiðsögn og ramma utan um hvað gera þyrfti og sérstaklega að fá góða þjálfun í því að setja hugmyndina upp með skýrum hætti til að geta kynnt fyrir öðrum.  Þannig varð hugmyndin raunhæfari, ég fékk aukið sjálfstraust í því að kynna hana, vinna raunhæfar áætlanir um þau skref sem taka þurfti og líka smá spark í rassinn með því að hafa stað til að mæta á hverjum degi til að vinna.

Bergið headspace er í fullu fjöri, þar starfa samtals 15 manns núna í mismiklu starfshlutfalli. Við hittum 90-100 ungmenni í hverri viku og hjálpum þeim með að takast á við lífið. Frá upphafi höfum við unnið með um 2500 ungmennum og erum rétt að byrja.

-Sigurþóra Bergsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Bergsins headspace

Heilun jarðar

Svepparíkinu má finna tegundir sem í sameiningu geta brotið niður öll helstu eiturefni er ógna lífi á jörðinni. Á matseðli þeirra eru kemísk, geislavirk og þrávirk lífræn efni, olíur og jafnvel plast. Sumir soga til sín þungmálma og afeitra með því jarðveginn í kring. Sveppir sundra þrávirkum efnum í meðfærilegri einingar sem aðrar lífverur geta nýtt sér. Þannig hrinda þeir af stað keðjuverkandi niðurbroti á eitruðum efnum sem að öðrum kosti safnast upp með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Þessir ferlar hefjast þó ekki fyrr en réttur sveppur kemur að vandanum.

Verkefnið gengur út á vinna tíma, hraða því að náttúrulegir ferlar fari í gang og hefja ræktun á vel völdum sveppum á menguðum svæðum. Búa þeim skilyrði til lífs og hlúa að þeim meðan þeir ná fótfestu. Tilraunir sem gerðar hafa verið með hreinsunarstarf sveppa sýna fram á mjög skjótan og áhrifaríkan árangur.

Reykavík er okkar

Reykjavík er okkar, felur í sér snjallforrit sem virkjar kraft borgarbúa í þágu okkar allra. Því er ætlað að gera fólki kleift að taka eignir og svæði í borginni til persónulegrar umhirðu. Með forritinu verður fólk gert kleift að sjá myndir af eignum borgarinnar í nærumhverfi sínu og taka að sér umhirðu og viðhald á þeim eftir vilja og hentugleik. Í skiptum fyrir umhirðuna myndi borgin umbuna þeim með inneign sem þau geta leyst út, til dæmis í formi hækkaðs frístundastyrks, lækkun á rafmagnsreikningi eða annari þjónustu frá borginni. Verkefnið snýst um að fá borgarbúa til þess að taka virkari þátt í umhirðu og umsjá nærumhverfis síns.

Farsæl öldrun - Þekkingarmiðstöð

Markmiðið með framtakinu er að koma á fót þekkingarmiðstöð í öldrunarþjónustu sem starfa mun á landsvísu, miðla þekkingu um öldrunarmál til starfsfólks og almennings með fjölbreyttum miðlunarleiðum og veita gagnreynda ráðgjöf til stofnana.

Það er mikil þörf á að stuðla að nýrri menningu í öldrunarþjónustunni, bæta þjónustu og starfsumhverfi með notkun nýjustu þekkingar og aðferða og auka skilvirkni og nýtingu á því takmarkaða fjármagni sem er til ráðstöfunar innan atvinnugreinarinnar með því að gera þekkingu aðgengilegri á landsvísu. Jafnframt er mikilvægt að nýta fjölbreyttar aðferðir við þekkingarmiðlun, s.s. tæknimöguleika og auka vægi þekkingarmiðlunar meðal hópa sem starfa saman í því umhverfi sem starfið fer fram.

Byggingarsamvinnufélag Samtaka um Bíllausan lífsstíl

Hugmyndin gengur út á að reisa og reka bíllaust hverfi í Reykjavík. Lagt verður upp úr því að byggja góðar og traustar íbúðir á viðráðanlegu verði en einnig verður boðið upp á leiguhúsnæði. Byggðin verður þétt en lágreist, með umhverfisvænu húsnæði. Þröngar göturnar verða göngugötur en bílum hleypt í gegn í neyðartilvikum. Nokkur bílastæði verða í útjaðri hverfisins.

Hugmyndin er að gera þeim sem vilja lifa bíllausum lífstíl kleift að búa í notalegu umhverfi sem samræmist þörfum þeirra og hugsjónum.

Samgönguspor

Verkefnið snýst um að koma á laggirnar þjónustu sem aðstoðar fyrirtæki og stofnanir við að innleiða og framfylgja samgöngustefnu. Tilgangurinn með samgöngustefnu er bæði að hafa áhrif á ferðahegðun fólks og viðhorf til vistvænna ferðamáta, og hefur því virkilega mikinn samfélagslegan ávinning í för með sér. Rannsóknir sýna að innleiðing samgöngustefnu hjá fyrirtækjum, stofnunum og skólum sé griðarlega áhrifamikil leið til þess að breyta ferðavenjum starfsmanna. Á Islandi vantar þjónustu og tól til að aðstoða fyrirtæki við að halda utan um samgöngusamninga, gögn og greiningu, og eftirfylgni. Að sama skapi skortir starfsmenn þægilegt skráningarkrefi og ríkari hvatningu.

Samfélagshús

Samfélagshúsinu er ætlað að tengja saman íslenskt samfélag og fólk af erlendum uppruna á fjölbreyttan og skapandi hátt. Sérstök áhersla verður lögð á að ná til flóttafólks og fólks í viðkvæmri samfélagsstöðu. Húsinu er í senn ætlað að vera menningarhús, fræðslumiðstöð og griðarstaður fyrir fólk sem vill kynna þekkingu sína og áhugamál fyrir öðrum - staður þar sem ólíkir menningarhópar mætast með það að markmiði að kynnast og tengjast.

Húsið á í senn að vera notalegur staður þar sem fólk getur komið og hitt annað fólk án skuldbindinga og unnið eða lært, fengið aðstoð við að fylla út umsóknir og skipst á tungumálaþekkingu. Í húsið kemur reglulega starfsfólk stofnana eins og verkalýðsfélaga, sveitarfélaga og menntastofnana svo dæmi séu tekin, þar sem markmiðið er að fólk af erlendum uppruna geti sótt sér samfélagsráðgjöf og upplýsingar á einum stað. Það er algengt að fólk sem nýlega hefur sest að á landinu missi af mikilvægum upplýsingum um réttindi sín vegna þess hversu óaðgengilegar þær upplýsingar eru.

Í húsinu verður lögð áhersla á fjölbreytta tungumálakunnáttu og menningarlæsi þeirra sem veita ráðgjöf og þjónustu.