Snjallræði samfélagshraðall

Snjallræði, fyrsti íslenski viðskiptahraðallinn fyrir samfélagslega nýsköpun, hóf göngu sína þann 10/10 2018. Hraðlinum er ætlað að stuðla að fjölbreyttari nýsköpun hér á landi og skapa vettvang fyrir aukið samfélagslegt frumkvöðlastarf.

Sjö framúrskarandi verkefni á sviði samfélagslegrar nýsköpunar voru valin til þátttöku og fengu þau vinnuaðstöðu í Húsi skapandi greina við Hlemm. Á sjö vikna tímabili, í október og nóvember 2018, fengu aðstandendur verkefnanna fjárhagslegan stuðning við að þróa hugmyndina áfram og koma henni í framkvæmd, ásamt þjálfun frá fremstu sérfræðingum Íslands á sviði samfélagslegrar nýsköpunar.

Höfði friðarsetur Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Festa - miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, Háskóli Íslands, Reykjavíkurborg, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Listaháskóli Íslands, Háskólinn í Reykjavík og Icelandic Startups standa að Snjallræði en framkvæmd hraðalsins er í höndum Höfða friðarseturs og Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands.

Umsóknarfrestur fyrir Snjallræði 2018 var til 10. september.

Fimmtudaginn 22. nóvember kl. 15:00 á Kjarvalsstöðum

Uppskeruhátíð Snjallræðis

Lokahóf Snjallræðis, fyrsta hraðalsins fyrir samfélagslega nýsköpun, fór fram fimmtudaginn 22. nóvember 2019 í Hafnarhúsi. Snjallræðisteymin kynntu verkefnin sem þau höfðu unnið að í 7 vikur í samstarfi við öflugan hóp mentora og hélstu sérfræðinga landsins á sviði samfélagslegrar nýsköpunar.

  • Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, eins helsta bakhjarls Snjallræðis, flutti erindi
  • Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, borgarfulltrúi, veitti teymunum viðurkenningar
  • Kynnir var Magnús Þór Torfason, lektor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands

Bakhjarlar

Landsvirkjun er stoltur bakhjarl Snjallræðis en fyrirtækið hefur á undanförnum árum markað sér skýra stefnu á sviði samfélagsábyrgðar. Áherslur og upplýsingagjöf er nú í endurskoðun með það að markmiði að leggja með betri hætti mat á þróun, umfang og áhrif fyrirtækisins með tilliti til samfélagsábyrgðar.

Samfélagsábyrgð snýst um að hámarka jákvæð áhrif fyrirtækja á samfélag og umhverfi og draga úr þeim neikvæðu. Hún snýst einnig um að vinna á opinn hátt þannig að hagsmunaaðilar geti fylgst með og haft áhrif á það hvernig fyrirtæki vinna með samfélaginu.

Upplýsingagjöf Landsvirkjunar um samfélagsábygð mun taka mið af nýjum áherslum í málaflokknum svo sem innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt er stefnt á innleiðingu valinna GRI vísa til þess að styðjast við í markmiðasetningu og skýrslugjöf í tengslum við samfélagsábyrgð.

Hér má finna frekari upplýsingar um Landsvirkjun og áherslur fyrirtækisins á sviði samfélagslegrar ábyrðar.

LV_Brandmark_positive-colour.jpg

Hvað er samfélagshraðall?

Hefðbundið hlutverk viðskiptahraðla (e. business accelerator) er að hraða ferlinu sem fyrirtæki fara í gegnum frá því að hugmynd fæðist og þar til viðskipti taka að blómstra. Samfélagshraðall byggir á svipuðu módeli en grundvallast á sterkri áherslu á samfélagslegan ávinning verkefnanna. Þátttaka í samfélagshraðli felur í sér ókeypis aðgang að sameiginlegri vinnuaðstöðu og aðstoð fjölda leiðbeinenda með sérfræðiþekkingu sem nýtist við þróun verkefnanna, s.s. úr atvinnulífinu og háskólasamfélaginu. Þátttakendum stendur jafnframt til boða þjálfun og fræðsla á meðan hraðallinn stendur yfir. Hraðlinum lýkur með sérstökum fjárfestadegi eða kynningardegi þar sem þátttakendur kynna hugmyndir sínar fyrir fjárfestum eða viðeigandi stofnunum og fyrirtækjum. Þeir fá því aðstoð við undirbúning, góð ráð og tengsl við fólk í atvinnulífinu og opinbera geiranum, sem og aðra sem standa í sömu sporum.

Einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki geta sótt um að taka þátt í hraðlinum en opnað verður fyrir umsóknir fyrir Snjallræði 2019 á allra næstu misserum.

Við tökum á móti öllum hugmyndum, stórum og smáum, fullmótuðum og hráum en megin áherslan er á skýra sýn um samfélagslegan ávinning þeirra.

Samfélagsleg nýsköpun

Nýsköpun og frumkvöðlastarf er gjarnan tengt nýjungum á sviði tækni og raunvísinda og rík áhersla lögð á fjárhagslegan ávinning. Nýsköpun er hins vegar ekki síður mikilvæg á sviði heilbrigðis-, mennta- og velferðarmála og nauðsynlegt að horfa til ávinnings samfélagsins af örum tækninýjungum og frumkvöðlastarfsemi almennt. Viðskiptahraðall í samfélagslegri nýsköpun hvetur einstaklinga, félagasamtök og fyrirtæki til að taka þátt í nýsköpun sem hefur í för með sér jákvæð áhrif á samfélagið og opnar um leið augu almennings fyrir mikilvægi þess að nýsköpun stuðli að samfélagslegum ávinningi.

Meginútkoma samfélagshraðals getur því verið afar fjölbreytt og m.a. falist í því að koma á fót góðgerðarsamtökum, stuðla að menningarstarfi, umhverfisvænum lausnum, uppbyggingu í menntakerfinu eða nýrri tækni fyrir heilbrigðiskerfið.