26. sept. 2025

Snjallræði á Hönnunarþingi 2025

Dagana 26.–27. september fer Hönnunarþing (Design Thing) fram á Húsavík. Þema þingsins í ár er matur og hvernig hann birtist í hönnun og nýsköpun.

Dagana 26.–27. september fer Hönnunarþing (Design Thing) fram á Húsavík – árleg hátíð hönnunar og nýsköpunar sem hefur vaxið hratt og orðið einn af spennandi vettvöngum skapandi greina á Íslandi.

Þema þingsins í ár er matur og hvernig hann birtist í hönnun og nýsköpun. Dagskráin samanstendur af fyrirlestrum, vinnustofum, uppákomum, sýningum, tónleikum og matarviðburðum. Meðal gesta eru bæði innlendir og erlendir sérfræðingar – allt frá frumkvöðlum til hönnuða og listamanna.

Önnur vinnustofa Snjallræðis – af fjórum sem teymin fara í gegnum fram til desember – verður af þessu tilefni haldin á Húsavík, samhliða Hönnunarþingi. Háskólinn á Akureyri leiðir vinnustofuna og tengir þannig sprotahönnun Snjallræðis við þann kraftmikla suðupott sem þingið er.

Á vinnustofunni fá frumkvöðlar að þróa hugmyndir sínar áfram með aðferðum sprotahönnunar – en jafnframt að taka þátt í fjölbreyttri dagskrá Hönnunarþings. Þannig sameinast markviss vinna innan Snjallræðis og opinn vettvangur þingsins, þar sem tengslamyndun, speglun og innblástur skipta lykilmáli.

Við hlökkum til að sjá hvernig þessi tenging eflir verkefnin sem teymið er að þróa innan Snjallræðis.

Hönnunarþing er opið öllum sem hafa áhuga á hönnun, nýsköpun og skapandi greinum.
Sjá dagskrána hér: https://www.hradid.is/designthing