25. nóv. 2025

Úr framkvæmdagleði í frásagnarlist!

Lokavinnustofa Snjallræðis 2025 var haldin í Grósku undir leiðsögn Odds Sturlusonar frá HÍ

Fjórða og síðasta vinnustofa Snjallræðis fór fram í Grósku um síðastliðna helgi. Oddur Sturluson, verkefnastjóri Snjallræðis, stýrði vinnustofunni.

Teymin mættu vel undirbúin eftir fyrri lotur en að þessu sinni var lögð áhersla á framkvæmd verkefna og áhrifaríka kynningartækni. Fyrst var farið yfir þau atriði sem þarf að huga að til þess að verkefni verði lífvænleg til framtíðar. Verkefni eru ólík í eðli sínu og því mikilvægt að teymi ígrundi ólíkar nálganir. Spurningar eins og hvaða hraði hentar vegferðinni okkar?, hvers konar fjármögnun er viðeigandi? og hvaða hlutverkum gegna ólíkir teymismeðlimir? voru ræddar. Þá var farið yfir aðgerðaáætlunartækni sem hjálpar teymum að samstilla sig í vegferðinni, þar sem gagnsæi og skýr markmiðasetning skipta lykilmáli. Ræddar voru mismunandi styrkja- og fjárfestaleiðir, mikilvægi markvissrar fjármögnunaráætlunar og hvernig skala megi lausnir á farsælan hátt.

Samhliða þessum hagnýtu verkfærum fléttaðist inn annað mikilvægt þema en ekkert verkefni kemst áfram nema frumkvöðlunum takist að miðla hugsjóninni, ástríðunni og snilldinni til annarra. Þess vegna er frásagnarlistin svo mikilvæg. Gegnumgangandi þema í Snjallræði er einmitt að finna kjarnann í hugmyndinni sem grípur athygli fólks, finna sína rödd og byggja á því áhrifaríka frásögn.

Því var ákveðið að fá Fannar Guðmundsson frá Improv Ísland sem leynigest í lokavinnustofuna! Fannar hristi upp í hópnum með improv-kennslu en slík kennsla er sífellt notuð meira í nýsköpunarnámi þar sem hún styrkir sköpunargleði, hlustun og sjálfstraust í framsögn. Fannar minnti hópinn á hvernig góðar sögur verða til, mikilvægi þess að finna kraftinn í virkri hlustun og mikilvægi þess að geta slakað á og haft gaman. Með improv-kennslu gefst tækifæri á að stíga út fyrir rammann og prófa nýjar leiðir til að miðla hugmyndum af orku og sannfæringu sama um hvort um sé að ræða til fjárfesta, viðskiptavina eða samstarfsaðila.

38f96054-3c2d-40d8-b487-4e5047e160bc

Uppskeruhátíð Snjallræðis fer fram þann 11. desember næstkomandi. Þá munu teymin kynna afrakstur vinnu sinnar í Snjallræði síðastliðna mánuði. Uppskeruhátíðin er frábært tækifæri fyrir þekkingarsamfélagið, fjárfesta, frumkvöðla og áhugafólk um nýsköpun til að hittast og kynnast nýjum teymum sem hafa einsett sér að vinna að lausnum sem takast á við brýnar áskoranir samtímans.

Hér má sjá allar helstu upplýsingar um teymin í Snjallræði í ár ( Snjallræði 2025)

Snjallræði er fyrsti sameiginlegi háskólahraðall Íslands en Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík fara með sameiginlega verkefnastjórn. Snjallræði er leiðandi vettvangur fyrir þróun framtíðarlausna er stuðla að sjálfbærni og bættu samfélagi.