21. ág. 2025

Þekkingarsamfélagið sameinast áfram um Snjallræði

Umsóknarfrestur lýkur á miðnætti í kvöld!

Nýr kafli hefst hjá Snjallræði sem hefur reynst öflugur vettvangur fyrir stórhuga nýsköpun og sprotahönnun síðan 2018. Nú hefur verið undirrituð viljayfirlýsing sem markar nýtt og formlegra samstarf Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Háskólans á Akureyri um verkefnastjórn hraðalsins í samstarfi við Reykjavíkurborg, Marel og Vísindagarða HÍ. Reykjavíkurborg endurnýjaði samstarfssamning og heldur áfram að leggja til fjármagn, aðstöðu og vinnuframlag til verkefnisins sem þegar hefur sýnt árangur sem vettvangur nýsköpunar í þágu samfélagsins.

Viljayfirlýsingin var undirrituð á viðburði í Grósku þar sem fulltrúar HÍ, HA, HR og Reykjavíkurborgar komu saman. Á sama vettvangi fóru einnig fram umræður um mikilvægi hönnunarhugsunar og rannsókna í nýsköpunarvinnu með þátttöku doktor Svövu Gröndeldt sem leiðir MITdesignX og frumkvöðla.

MITdesignX, nýsköpunarhraðall tengdur hönnunarsviði MIT, hefur frá árinu 2022 veitt Snjallræði faglega ráðgjöf. Samstarfið við MIT hefur gagnast íslenska þekkingarsamfélaginu gríðarlega, þar sem íslenskir háskólar tileinka sér aðferðafræðina og byggja upp innlenda sérhæfingu.

Samkomulagið er mikilvægt skref fyrir íslenskt nýsköpunarvistkerfi sem hefur verið í mikilli sókn. Á undanförnum árum hafa sprottið upp fleiri hraðlar, bæði með sérhæfingu eftir geirum og fyrir ólík stig þróunar, allt frá hugmyndum til lengra komin verkefna. Íslenskt hugvit og frumkvæði heldur þannig áfram að ryðja sér til rúms í atvinnulífi framtíðarinnar.

Umsóknarfrestur í Snjallræði 2025 rennur út á miðnætti í kvöld, fimmtudaginn 21. ágúst. Við hvetjum nemendur og starfsfólk með ferskar hugmyndir að sækja um og hlökkum til að taka á móti næstu kynslóð nýsköpunarfólks.

Sótt er um á www.snjallraedi.is